þriðjudagur, 29. apríl 2008

Ferðarykið að setjast í Einbúablá.

Hekla Xi á flugvellinum í Beijing.
Pæjutaktar í flugstöð.

Stelpurnar með Völlu langömmu.

Stoltur pabbi með stelpurnar í Geitlandinu.

Hildur Luo.

Og aftur... ...og einu sinni enn!
Systraknús.
Fyrsti útilegustóllinn prófaður.
Finnst Loki bara spennandi og notalegur.
Komin í vagninn.
Bónusferð, kerra með "Double happiness"
Uppi á lofti að leika.
Systurnar baða sig.

Hérna kemur síðasta færslan á þetta ferðablogg okkar, við erum komin heim í Einbúablána og lífið farið að ganga sinn vanagang. Allavega þann vanagang sem er orðinn okkar veruleiki núna! Erum orðin fjögurra manna fjölskylda og eins og Hekla Xi segir "Fimm með Loka!".

Við erum öll sömul að venjast þessum nýja veruleika og ekki síst hún Hildur Luo. Hún er óðum að venjast heimilisaðstæðum og er farin að slaka verulega á. Fyrstu dagana var hún svolítið óörugg með sig, svaf laust og vaknaði upp við minnsta þrusk. En þetta er allt að komast í einhverskonar fastari skorður.

Hekla Xi er byrjuð í leikskólanum, Kári aðeins farinn að koma vinnunni af stað og Loki tekur þessu öllu saman af stóískri ró.

Við vonum að þið hafið haft gaman að því að fylgjast með hérna á þessari síðu, þetta verður góð heimild fyrir Hildi Luo og okkur öll þegar fram líða stundir. Við þökkum ykkur öllum fyrir góðar kveðjur bæði hér á kommentakerfinu og í gestabókinni. Það hefur verið okkur mikils virði.

Framvegis munum við setja inn myndir á: http://www.heklaxi.barnaland.is/ en núna verður það systrasíða þeirra gullmola okkar Heklu Xi og Hildar Luo.


Bestu kveðjur frá kjarnafjölskyldunni í Einbúablá,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Loki.



miðvikudagur, 16. apríl 2008

Komin á klakann.

Sæl og blessuð öll sömul.

Við höfum ekki séð komment eða gestabók síðan við komum til Beijing, þannig að við höfum ekki séð allar þessar hlýju og skemmtilegu kveðjur frá ykkur. Takk fyrir að vera þarna og takk fyrir að sýna okkur þennan stuðning og takk fyrir að fylgja okkur í gegn um þetta.

Við erum semsagt komin til Reykjavíkur og erum komin í Geitlandið til ömmu og afa. Það er nú gott að koma heim, einhverstaðar stendur skrifað að maður fari í ferðalag til þess að koma heim. Allavega stendur það skrifað núna!

Ferðin gekk mjög vel heim, stelpurnar sváfu reyndar ekki mikið í Beijing - Kaupmannahöfn fluginu, en næstum allan tímann frá Köben og heim. Flugið var örlítið á undan áætlun frá Beijing og þá var ekkert stress að komast í flugið heim.

Allar töskur og kerrur skiluðu sér, sem er mjög gott líka!

Það verður ekki lengra að sinni,
Kveðja frá Reykjavík,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi og Hildur Luo.

mánudagur, 14. apríl 2008

Forboðna borgin og Lama temple á síðasta degi.

Hildur Luo Káradóttir.

Og aftur!

Hekla Xi og Margrét Edda með gullfiskum.

Sprett úr spori.

Flottar á Tian An Men torginu.

Á Torgi hins himneska friðar.

Margar táknmyndir þarna.

Inni í Forboðnu borginni.

Kári og Hildur Luo pósa.

Þarna var líka að finna friðsæld og ró.

Hurðabúnaðurinn í Forboðnu borginni.

Hekla Xi sætulíus.

Við norðurhlið Forboðnu borgarinnar.

Í Lama temple.

Hekla Xi, ljón og tvær illúðlegar skjaldbökur!

Flottasta hofið í Lama Temple.

Þreyttar en sælar eftir góðan dag.

Gott að fá sér frostpinna eftir heitan dag.

Þá er síðasti dagurinn okkar hér í Beijing að kveldi kominn. Allir sofnaðir nema Kári sem ritar þessar línur í myrkrinu. Töskur eru klárar - ekki mikið of þungar og ferðalangar tilbúnir að leggja í ferðina löngu heim til Bing dao - eyjunnar fögru. Ekki laust við að örli á heimþrá þrátt fyrir að það sé mikil upplifun að vera hér í Beijing, en það verður nú gott að komast í ferskan norðangarrann og fámennið heima. Við fljúgum með flugi frá Köben sem heitir FI-213 ef okkur lánast að ná því og áætluð lending er klukkan 20.55 í Keflavík.

En dagurinn já! Það var farið gangandi í skoðunarferð dagsins niður á Tian An Men torgið og þar var nú færra um manninn en þegar við vorum þar síðast. Voðalega gott að skoða allt sem fyrir augu bar og þrátt fyrir að ekki væri mannhaf, þá var mannlífið mjög skemmtilegt. Við renndum í gegn um Forboðnu borgina og dáðumst að öllum þessum óendanlega fögru og glæsilegu byggingum. Alveg hreint ótrúlegur staður. Hekla Xi gat alveg séð fyrir sér nokkrar senur úr Mulan myndunum og benti stundum á að þarna hefði nú Mulan gert þetta og Xiang gert hitt. Mjög gaman, en hitinn var ansi mikill þarna og við vorum fegin þegar við komumst í Imperial garðinn í norðanverðri Forboðnu borginni. Þar fengum við að drekka og borða og gátum slappað af fyrir næsta áfangastað.

Til að komast þangað þurftum við leigubíl. Ætti ekki að vera flókið, en það tók okkur drjúgan tíma að fá bíl til að taka okkur uppí! Þeir geta ekki stoppað hvar sem er og það virðist vera þannig að þeir vilji ekki taka túrista með börn, kerrur og nokkra poka upp í bílana sína, bara veifa á móti vingjarnlega og keyra framhjá manni. En allt hafðist þetta að lokum og vinaleg kona tók okkur upp í leigubílinn sinn og keyrði okkur sem leið lá í Lama Temple. Nú fórum við aðrar götur en með rútunni okkar stóru, við ókum í gegn um skemmtilegt íbúðahverfi með fullt af dagvöruverslunum. Iðandi mannlíf þar eins og annarsstaðar í borginni. Sumstaðar voru Hutong hverfi enn uppistandandi og var verið að gera mikið af því upp. Allt skal vera flott þann 08.08.08. þegar ólympíuleikarnir verða settir.

Þar ríkti róin og friðurinn eftir að inn var komið. Alveg óendanlega fallegur og friðsæll staður að koma á. Gæskan og alúðin skín af hverjum steini, hverri spýtu og hverju andliti munkanna sem eru þarna við störf sín. Mökkur af reykelsum stígur til himins með reglulegu millibili. Alveg ótrúlega þægilegt og gott andrúmsloft þarna. Og það þrátt fyrir atburði síðustu vikna í Tíbet. Keyptum okkur slatta af "budda worshipping utensils", þ.e. reykelsi og fleira fallegt þarna. Toppstaður.

Komum heim klukkan að verða fimm í dag og fórum við í ólympíubúð og fengum þar smávegis af minjagripum. Deginum lauk svo með því að hópurinn fór að borða saman hérna niðri á hótelinu. Ofboðslega fallegur veitingastaður og maturinn virkilega góður og fallega fram borinn.

Á morgun förum við í loftið klukkan að verða þrjú að kínverskum tíma og lendum í Keflavík klukkan 21.00 annað kvöld, 15. apríl. Langt og strangt ferðalag, verðum samtals í loftinu í næstum 13 klukkutíma. Og eftir þetta maraþonflug verðum við komin á klakann í okkar yndislega umhverfi.

Kveðja frá Beijing í síðasta sinn í þessari ferð...
Kveðja,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Stína.

sunnudagur, 13. apríl 2008

Sumarhöllin í dag.

Flottar mæðgur á prinsessurúminu.

Við Kunming Lake.

Stína við vatnið fagra.

Við Langa ganginn.

Hildur Luo og Hekla Xi í baksýn.

Hekla Xi hugsi.


Við Kunming vatnið.

Alsæl dama.

Brosandi andlit...

...og líka hér!

Við Marble Boat.

Mæðgurnar fara á Drekabátinn.

Familían litla á siglingu.

Í rútunni á heimleið.

Það er nú ekki svo mikið að reportera í dag, ein hefðbundin skoðunarferð og í leiðinni kíkt á silki og perlur! Það var semsagt farið af stað í morgun klukkan tíu eins og í gær og lá leiðin frá hótelinu og framhjá Tian An Men hliðinu og torginu. Fórum í silkiverksmiðju/verslun sem staðsett er nálægt Temple of Heaven og fengum þar ítarlega úttekt á hvernig silkið verður til og er handerað til að búa til föt og sængur. Þarna var svolítið verslað eins og víða annarsstaðar! Enda gaman að finna eitthvað sem ekki er hægt að fá heima á Íslandi eða fyrir minni pening en þar.

Við fórum svo áleiðis í Sumarhöllina en umferðin er ansi mikil hér í miðborginni og það tók drjúgan tíma að komast út fyrir hana. Það eru ekki nema 16 kílómetrar frá Forboðnu borginni og að Sumarhöllinni, en við vorum ábyggilega næstum klukkutíma að komast þangað. En við erum í voðalega góðri rútu og með fínan bílstjóra, þannig að það væsti nú ekki um okkur. Svo er líka alltaf eitthvað framandi og spennandi að sjá út um gluggann.

Í Sumarhöllinni hennar Dowager Cixi keisaraynju var allmargt um manninn svo ekki sé meira sagt! En veðrið lék við okkur, eins og virkilega góður Íslenskur sumardagur. Þarna er ofboðslega fallegt um að litast, langi gangurinn sem var byggður til að fína fólkið gæti spásserað meðfram vatninu á rigningardögum, húsagarður þar sem Cixi hneppti keisarann í gíslingu í 10 ár, Marmarabáturinn sem Cixi lét búa til í stað þess að styrkja sjóherinn, búddamusterin miklu á Longivety hills, drekabátarnir sem sigla með fólkið um vatnið fagra og fleira og fleira. Þarna var bara notalegt að vera þrátt fyrir mannmergðina. Og sérstaklega var gaman og huggulegt að sigla á drekabátnum í ferskri golunni.

Á eftir fórum við inn í perluoutlet, en þá brá nú svo óvenjulega við að við keyptum bara nákvæmlega ekki neitt! Enda fokdýr vara sem takmarkaður áhugi er á hjá okkur hjónakornunum. Hekla Xi hefði þó getað hugsað sér eitt og annað þarna inni, fékk meira að segja að prufa eitthvað ógurlega fínt perlukrem!

Við komum svo heim á hótel til þess eins að skila af okkur dóti og fara strax aftur í leigubíl í Friendship store, maður verður nú að nýta kílóin sín og töskuplássið! Þar fórum við fyrst á Pizza Hut og var Hekla Xi alveg óendanlega þakklát fyrir að fá pizzu með ananas og osti. En hún hefur nú samt verið mjög dugleg að borða og ekki verið til vandamál með það. Hún hefur alltaf smakkað og stundum verið svolítið hissa á hvað sumt er gott. Efnilegur sælkeri á ferð!

Eftir þessa verslunarferð fórum við heim á hótel og tókum það rólega í kvöld. Hildur Luo var reyndar svolítið örg í kvöld og skildum við ekkert í því fyrr en að við gáfum henni meira að borða. Þá var auðvitað allt í himnalagi og ekki laust við að foreldrarnir fengju snert af samviskubiti yfir að svelta barnið! En það er eiginlega lygilegt hvað getur komist í þennan litla kropp af graut og mjólk, og svo ýmislegt annað að auki! Við verðum greinilega að reyna að halda okkur betur við efnið í þeim málum! Við gerum betur á morgun...

Við byrjuðum aðeins að setja í töskur í kvöld, enda er okkur farið að langa heim. Sem er eins gott því að núna er bara einn dagur eftir hérna í Kínverska Alþýðulýðveldinu. Hekla Xi er líka sátt við að þetta sé að verða búið. Þetta hafa verið erilsamir dagar hérna í Beijing og svolítið erfiðir fyrir Heklu Xi, hún er eiginlega búin að fá nóg af þessu flandri og vill helst komast heim í leikskólann sinn, bara á morgun helst! En hún er nú samt sátt við að það sé bara einn dagur eftir og hlakkar til að komast heim í Geitlandið. Og ef að amma Guðrún les þetta langar Heklu Xi alveg ógurlega að fá heilan kjúkling að borða þegar hún kemur heim, svona með skinni og beini til að naga!

Þangað til á morgun látum við þetta duga...

Kveðja frá Beijing,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Stína.

laugardagur, 12. apríl 2008

Kínamúrinn heimsóttur.

Mæðgurnar við morgunverðarborðið.

Stína Stuð!

Stelpurnar tóku lagið í rútunni.

Hreiðrið - Ólympíuleikvangurinn.

Mætt á múrinn.

Fyrirsætutaktarnir leyna sér ekki!

Feðginin kasta mæðinni.

Brattur múrinn þarna.

Á einni varðstöðinni.

Spilandi glöð eftir gönguna.

Hekla Xi ánægð með þetta allt saman.

Sólsetur í Beijing, út um gluggann hjá okkur.

Tian An Men hliðið í kvöld.

Mao vakir yfir öllu saman.

Spáin sagði að það gæti ringt í dag, en sem betur fer slapp það til og það var bara ágætisveður fram eftir degi og svo fór sólin að skína á okkur. Við hófum ævintýri dagsins með því að fara í Jade verksmiðju, þar var margt fallegt að sjá. Enda fórum við þaðan út talsvert fátækari en fyrir! En það var nú eitt sem við vorum búin að heita okkur að kaupa okkur eitthvað fallegt þarna, sem við gerðum svikalaust.

Skömmu síðar vorum við komin að Kínamúrnum mikla. Það var mikil upplifun að koma að honum aftur, en við skoðuðum hann á öðrum stað í síðustu ferð okkar hingað til Alþýðulýðveldisins. Mjög skemmtilegt og var Hekla Xi mjög uppnumin af þessu og sá fyrir sér senur úr Mulan myndunum í hverju horni!

Hún var líka ekki neitt smádugleg að klífa múrinn, hún fór fyrir eigin fótafli alla leiðina sem við fórum og var fráleitt síðust. Ofsalega gaman að upplifa þetta með henni. Hrifningin er svo mikil og einlæg. Þarna vöktum við líka talsverða athygli vegna barnanna. Heimafólkið rekur upp stór augu og talar heil ósköp við Heklu Xi á kínversku. Finnst það líka svolítið skrýtið að hún geti ekki skilið þau! Svo var þarna hópur af 18 fjölskyldum frá USA sem er að fá börnin sín í fangið í á morgun. Þau spjölluðu auðvitað við okkur og var það bara gaman.

Eftir að múrskoðun var lokið var farið á veitingastað í boði BLAS í Friendship store. Ljómandi góður matur og svo skoðuðum við svolítið í búðinni á eftir. Ekki keyptum við mikið þar, en það er nú alltaf hægt að kaupa eitthvað smávegis!

Komum svo heim á hótel rúmlega fimm í dag og tókum því rólega fram til rúmlega sjö, en þá fórum við á röltið hérna smáhring í kring um hótelið. Iðandi mannlíf í bænum og voðalega gaman að strolla um hverfið.

Kári fór svo að Tian An Men hliðinu og tók nokkrar myndir, mjög fallegt að koma að þessu að kvöldi til. Afslöppuð og góð stemning þarna, en fullt af fólki á ferðinni. Núna eru bara tveir dagar eftir í þessari sæludvöl hérna á Grand Hotel í Beijing. Allt tekur enda, en þó eru tveir dagar af skemmtilegum ævintýrum eftir. Og svo er það ferðalagið mikla heim á landið bláa á þriðjudaginn, það verður nú gott að komast heim með ungana okkar og fara að komast í eðlilegt umhverfi með þær og kynna hana Hildi Luo fyrir fjölskyldu og vinum auðvitað!

Bestu kveðjur frá Beijing,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Stína.